Gulli : varstu að leita að mér?

Today I am Yes, I am!  |  gulli@love.is  |  Skjalaskápur - Eldra efni  |  Forsíða  

     

23.3.02

 
Ómissandi
Var að fá símtal úr sveitinni. Það eru fermingar heima á morgun. Þá þykir betra að fá mig til þess að koma og vinna. Fólk virðist ekki getað haldið veislu þarna í sveitinni nema að ræsa mig út. Það er annars bara ágætt. Verð þá að keyra í sveitina í nótt, því að ég er að vinna á Argentínu til rúmlega tólf. Þá er ég að fara í afmæli til Hjalta. Það væri líka gaman að geta kíkt á Hildi, Heigga, Rúnari, Ingva og Karen áður en þau fara niður í bæ. Svo er alltaf nauðsynlegt að geta mætt til mömmu og pabba svolítið fyrr áður en maður rýkur út á hádegi til þess að fara vinna.

::12:11
 
Var að frétta það
Sigga var að segja mér það rétt í þessu á MSN að MR hefði unnið Gettu betur í gær. Fúlt! Það var samt þægilegt að heyra hana segja að þeir rétt mörðu þetta. Mikið hlakka ég til þegar MR-ingar vinna þessa keppni EKKI. Þá held ég partý.

::12:00
 
Slappaðu af!
Sýningin í gær var stórkostleg. Fyrir utan það hversu vel var leikið og handritið vel skrifað, þá var sýningin stórkostleg. Skemmtilegast var að sjá hvernig sögunni var hnoðað inn í frásögnina og breytt. Hverjum hefði til dæmis dottið það í hug að það var íslensk húsmóðir sem reiknaði út hvernig hægt væri að komast til tungslins?, að allir reykvískir karlmenn hefðu farið í drag og löggan hefði verið svona kynvillt!

Annars var mjög gaman að sjá Valda Píanó syngja lag. Það var samt svolítið skrítið. Maður átti ekki beint von á því að sjá hann leika eða syngja.

Mæli með því að þeir sem eiga eftir að sjá sýninguna reyni að fara á skírdag, mér skillst að það sé sýning þá. Athugið það bara hér.

::11:57


22.3.02

 
Sumarið er komið...
...innandyra. Það er alveg yndislegt að vakna við sól og sumaryl. Sitja svo inn í stofu á tánum og í náttbuxunum að lesa lögfræði. Síðan er maður að kafna úr hita. Fer að klæða sig og fer út. Þá er rok. Það gat náttúrulega ekki verið logn og hiti eins og inni í stofu... fúlt. Ég sem var búinn að klæða mig í sumarfötin mín og setja upp sólgleraugun. Mér leið eins og röngum manni á röngum tíma í umferðinni að syngja við sumarlögin. Ég er greinilega ennþá í raunveruleikaflótta.

::16:12
 
Afmæli
Chad á afmæli í dag. Til hamingju með afmælið!

::03:06

21.3.02

 
Lögum tímaskekkjuna !!!
Vá hvað ég er sammála henni Sigríði sem sér um þáttin Fólk. Á Strikunu fjallar hún um jafnrétti og deilir á kynsystur sínar og Lottó-auglýsingu.

Hún deilir á kynsystur sínar fyrir að senda tölvupóst sín á milli um það hversu karlmenn séu glataðir og hvernig þeir geti ekki lifað án þeirra. Þetta er bara ekki fyndið lengur. Voru það ekki einmitt þið elskurnar mínar sem voruð að berjast fyrir jafnrétti milli kynjanna? Ef að karlmaður myndi senda svona póst út þá væri hann álitinn karlremba. Þurfum við ekki aðeins að hugsa áður en við framkvæmum? Jafnrétti = nei.

Sigríður minnist líka á Lottó-auglýsinguna þar sem kona er látinn vera (leyfi mér að vitna í Sigríði) "tekjulausa dekurrófan" !!! Með þessari auglýsingu er Lottó í raun að koma fram með skoðanir sem voru við lýði fyrir einni öld. Ég held að stjórnendur íslenskrar getspár þyrftu að skoða hvaða ár væri til þess að ná árangri í markaðssetningu. Kannski er hægt að leysa þetta vandamál á mjög einfaldan hátt: það er hægt að senda þeim dagatal. Þá fer ekki fram hjá þeim hvaða ár það er! Veit einhver hvar Íslensk getspá er til húsa?

::15:53

 
Glósur
Í dag er ég búinn að vera lesa Andra Árnason, þ.e. það námsefni sem hann kenndi okkur fyrir áramót. Vildi óska að ég hefði skrifað þetta betur eða haft fartölvu. Ég fór út í bókabúð og keypti stækkunargler til þess að geta skilið skriftina mína. Ætli ég hafi verið á einhverju sterkara en kók í föstudagstímunum fyrir áramót? Man það ekki...

::15:34
 
Veruleikaflótti
Það er endalaust þægilegt að geta gleymt sér svolítið í daglegu amstri með því að búa sér til "ideal" world í TheSims. Ætli það sé ekki algjör snillingur sem fann upp þennan leik. Allavegana er ég endalaust þakklátur. Við öll á heimilinu erum komin með ágætis hverfi. Allir eiga mikið af vinum. Í mínu húsi búa fjórir kynvillingar. Í húsinu hennar Völu eru Jennifer og Brad. Siggi er að reyna við lesbískt par, hann er búinn að vera með þeim báðum. Freyja er komin með þetta glæsilega hús og par, og það er alltaf verið að bjóða þeim að ættleiða barn.

Þetta er ekkert of mikið eða hvað? Enginn veruleikaflótti... eða?

::15:34


20.3.02

 
Það styttist...
...í að Karen og Ingvi lendi á Keflavíkurvelli. Þau koma með flugi FI213 frá Copenhagen klukkan 22.20. Annars er hægt að sjá allar komur á Keflavíkurvelli hér.

::17:49
 
Stundum er maður alltof bráður
Ég er búinn að senda fyrirspurn til Blóðbankans núna vikulega allt þetta ár; á hverjum mánudegi hefur Blóðbankinn fengið tölvupóst frá mér. Í dag fékk ég loksins svar. Þetta er með betur orðum bréfum sem ég hef fengið. Pent og fallegt, en svaraði samt ekki spurningunni minni. Ég sem var einmitt að lesa stjórnsýslulögin og upplýsingalögin í morgun til þess að undirbúa kæru til Heilbrigðisráðherra því þeir svöruðu mér ekki. Blóðbankinn rétt slapp við Gulla Providence þarna.

::17:46
 
Veikindi
Önnur af tveimur sambýliskonun mínum er veik. Þess vegna hefur hún ekki svarað póstinum sem ég sendi til hennar í vinnuna í dag. Þeir sem vilja senda henni batakveðjur geta gert það hér: Batakveðja!

::17:41
 
Stefnan er tekin í heimahagann!
Á föstudaginn er stefnan tekin heim í gamla sauðahúsið. Ég stefni á að fara að sjá fyrrverandi skólasystkini mín setja upp stykkið Slappaðu af í Borgarleikhúsinu. Mér finnst vera allt í lagi að fara einu sinni, fyrst ég gat farið á sýninguna í fyrra fjórum sinnum.

::17:30
 
Allt er gott frá Akureyri
Enn og aftur eru það Akureyringar sem bjarga mér. Núna voru þeir að bjarga mér með veflitina. Takk VMA! Annars eru VMA-ingar snillingar eins og annað fólk á Akureyri. Ég kynntist nokkrum sumarið 1999 á Kanaríeyjum þegar ég var á sama tíma og þeir í útskriftarferð. Ég heillaðist strax af Akureyringum. Ég læt ykkur fá slóðina líka svo að það græði allir af þessari þjóðargersemi.

Veflitir

::15:34

 
Hvað er kærleikur og bræðralag?
Þegar maður les söguna þá sér maður að það var mikil hefð hér áður fyrr að fá presta til þess að ganga út og blessa eða vígja heilu tonnin af stríðsvopnum áður en farið var til styrjalda. Þá þótti ekkert tiltökumál að prestarnir myndu ganga út úr kirkjunum sínum og blessa þessi manndrápstæki, sem ganga þvert gegn kristnum boðskap um kærleik og bræðralag.

Núna leyfir kirkjan ekki hommum og lesbíum að ganga saman inn í kirkjuna og fá að staðfesta ást sína á hvoru öðru fyrir framan Guð sinn. Þetta er alveg merkileg ákvörðun kristinna manna sem kenna sig við kærleik og bræðralag. Kirkjan sjálf virðist alltaf vera blind gagnvart einhverju í samfélaginu. Áður var hún hlynnt manndrápum og blessaði það. Þar á undan var hún hlynt þrælahaldi og var lengi vel með þá kenningu að til væru tvær tegundir af sálum, æðri sálir lifðu í hvítum líkömun en neðri sálir lifðu í svörtum. Þess vegna hefði hvíti maðurinn fullt vald til þess að temja svörtu sálirnar sem þyrftu mikið aðhald vegna náttúrulegrar heimsku og vitsmunaskorts svarta mannsins. Á ég líka að minnas á hversu lengi hún var að viðurkenna að konur væru ekki eign karlmannsin og þær hefðu sjálfstæða sál? Í dag, árið 2002, vill kirkjan mismuna fólki eftir því hvort kynfæri þeirra liggja utan á líkamanum eða innan í honum.

Er ekki hægt að gera þá kröfu til kirkjunnar að fólk giftist nakið, ef það skiptir svona miklu máli hvernig kynfæri fólksins eru sem hún er að blessa.

Ef að kirkjan ætlar að vera svona mikið út úr tengslum við raunveruleikann, þá hlýtur sú krafa verða háværari að hún aðskiljist ríkisvaldinu. Því hvernig getur þjóðkirkja staðið undir nafni ef hún ætlar ekki að leyfa þjóðinni að vera með?

::11:45

 
Úbs - Skattmann
Ég gleymdi því alveg að maður þarf að fylla út skattskýrsluna sína. Þökk sé heimasíðu skattstofunnar í Singapúre og Þóris þá mun ekki verða áætlað á mig. Samkvæmt rsk.is þá er framtalsfrestur til næsta mánudags, en ef maður er netvæddur (vei) þá er frestur til 8. apríl. Ég mun þá líklega bíða eitthvað áfram með að gera þetta blessaða framtal.

::11:17
 
Skap - Sköp
Í hvaða skapi er ég í dag? Þú getur alltaf séð það á síðunni minni, því að nú birtist það hér. Það var hún SiggaBeib sem ég fékk þessa hugmynd lánaða frá.Takk Sigga.

::11:06
 
Grensan á Grensásvegi
Komst að því hvað grensa er í morgun. Ég var að keyra í skólann og keyrði aðeins hraðar en lög gera ráð fyrir. Síðan kom ég að ljósum, og af því að ég hafði þurft að stoppa á tveimur ljósum þar á undan, þá fannst mér ég eiga skilið að fara yfir á dökkbleiku. Svo er mér litið til hliðar. Þar er staddur þessi fallegi bíll með góðum ljósabúnaði. Tveir einkennisklæddir karlmenn, grr... Ég var alveg á "grensunni".

::10:48

19.3.02

 
Svört lesbía og Survivor
Ég og Valgerður Rún Ben (hún vill láta kalla sig þetta) sem er með mér í lögfræði vorum að fara yfir hver myndi vinna í þessum Survivior. Það verður svört lesbía. Með þessum rökum: 1. hommi vann fyrstu seríu, 2. kona vann aðra seríu og 3. gyðingur vann þá þriðju. Þetta eru allt hópar sem hafa þurft að berjast fyrir mannréttindum á síðustu áratugum. Þessir hópar eru greinilega hæfari en hvítur gagnkynhneigður karlmaður til þess að komast af úti í náttúrunni.

Það lætur mann velta einu fyrir sér. Ef að hvítur, gagnkynhneigður karlmaður kemst ekki af úti í náttúrunni, þá er greinilegt hvernig hann hefur komist af hingað. Hann hefur greinilega alltaf komist áfram með aðstoð kvenna, homma, lesbía, gyðinga og annara hópa sem hafa ekki full mannréttindi og hafa lent annars staðar undir í þjóðfélaginu. Þessir hópar eru þeim lífsnauðsynlegir. Ef að þessir svokölluðu minnihlutahópar væru ekki í eðli sínu manngott fólk, þá hefði þetta hvíta, gagnkynhneigða karldýr ALDREI lifað af. Hverjum er þá að kenna að þessir hópar hafa verið kúgaðir af þeim? Er það mannkænsku minnihlutahópanna að kenna eða mannvonsku og heimsku hvíta karlmannsins?

Það kemur manni greinilega í koll að vera góður. Sagan kennir manni það.

::21:54

 
Helga
Helga er bloggari. Hún er líka feministi og jafnréttissinni út í botn. Það verður fjör að fylgjast með henni.

::13:56
 
Ási er hetja!
Núna er Ási að hjálpa mér að skrá mig inn á þýska síðu. Hann er á Akureyri en ég er bara 600 km í burtu eða eitthvað svolís. Tæknin er yndisleg Við erum að skrá okkur inn á þýskar siður hja reglubræðrum okkar þar ytra. Vei! Ég skil samt ekki boffs. Ég vona að hann sé ekki að gera mig að gríni í Tyskland.

::13:37
 
Rólegt og dularfullt
Ég eyddi gærkvöldinu með Bjarna og Bentínu eða M&M eins og þau heita í hausnum á mér. Við horfðum á fyrsta þátt í Survivior IV. Það var okkar einróma álit að það voru margir strákarnir alveg lausir við það að vera ljótir. Gott að Peter var kosinn út. Ég held nefnilega með Patriciu, en ég held samt að hún verði kosinn burt næst, því að nú þegar Peter er farinn, þá er hún orðinn svolítið "bossy". Tricia, þú ert næst, því miður.

Svo enduðum við kvöldið á að skoða spilin hennar Bentínu og Bjarna líka, en bara smá.

::13:20

 
Stjörnuspáin
Ef þú stendur frammi fyrir prófi einhverskonar eða verkefni þar sem sannfæringakraftur þinn kemur að góðum notum ættir þú að koma þér beint að efninu og ekki vera með neinar vífilengjur. Þú ættir að fylgja óskum þínum eftir án þess að snúa við á miðri leið því markinu verður náð hjá stjörnu meyju. Millivegurinn er góður fyrir fólk eins og þig.

- Hvað eiga þeir við með milliveginn fyrir fólk eins og þig? Er verið að segja að ég sé montrass eða full kröfuharður? Er ekki bæði neikvætt?
Dagurinn er ónýtur

::13:11

 
Réttlæti eða nöldur - í mér...
Ég fékk þetta bréf sent til mín í vikunni:

Kæri Guðlaugur

Þakka þér kærlega fyrir bréfið og ábendinguna. Þú ert í hópi margra góðra og traustra viðskiptavina sem gefa sér tíma til þess að láta okkur vita ef betur má fara hjá okkur á einhvern hátt. Þetta er ómetanlegt fyrir okkur því betur sjá augu en auga.

Í þessu tilviki sem þú minnist á í bréfinu er um starfsmenn á minni deild að ræða, búið er að tala við þá og könnuðust þeir við atvikið. Þess er skemmst að minnast að þeir harma að þetta atvik skuli hafa átt sér stað og þeirra þátt í því, vil ég því fyrir þeirra hönd, Línudeildar og þá ekki síst Símans, biðja þig afsökunar á okkar þætti í þessu atviki.

Það er okkar einlæga ósk að þrátt fyrir þetta leiðinlega atvik sjáir þú þér fært að eiga þín viðskipti við okkur áfram.

Með kærri kveðju
xxx, starfsmaður Símans


::13:10

 
Bið, endalaus bið...
Ingvi og Karen koma heim annað kvöld. Þau eru búin að vera á faraldsfæti um Evrópu síðan í janúar. Það verður gaman að sjá hvort að þau hafi ennþá allar sínar tíu fingur og tær. Þau lenda í Keflavík um ellefuleytið. Ég þurfti í morgun að athuga hvort ég fyndi ekki myndir af þeim, svona til þess að vera viss þegar maður sæi þau. Ég ákvað að kíkja á myndirnar frá Krít, því að þau verða eins og sætir litlir negrar.

Annars eru þau búin að vera dugleg að senda bréf heim. Í þessu fáu skipti sem ég hef hringt, þá hafa þau alltaf verið á bar eða í partýi. Ætli það sé lýsandi fyrir seinustu mánuðum hjá þeim? Hlakka til að komast að því.

::13:07


18.3.02

 
Stjörnuspáin
Þú býrð yfir innsæi sem fáir eru færir um að tileinka sér. Stjarna meyju á það til að byggja ákvarðanir of oft á eigin eðlisávísun en gleymir oft á tíðum að byrja á byrjuninni áður en fyrsta skref er tekið. "Farðu þér hægt" ætti að vera það eina sem innsæi þitt segir þér um þessar mundir. Kynntu þér staðreyndir mála áður en þú lætur til skara stríða. Vertu á varðbergi þegar viðskipti eru annars vegar næstu vikur og mánuði.

Mér fannst alveg tilvalið að skella inn stjörnuspánni minni fyrir daginn í dag. Svona fyrst maður er að reyna byrja síðuna sína.

::13:56

 
SMS
Mamma og pabbi komu frá Kanarí á laugardaginn. Þau voru í spænska ríkinu í rúma viku. Áður en þau fóru lærðu þau að senda sms. Ég fékk mjög svo að finna fyrir því. Ég held að þau hafi sent að jafnaði 5 sms á dag. Hér eru nokkur dæmi um innihald þeirra:

"Vorum að vakna"
"Erum úti að borða"
"Mamma þín er á ströndinni"
"Sakna ykkar, kveðja Mamma"

Ég held að það sé ekki langt að bíða með það að ég þurfi ekki yfir höfuð að hafa bein samskipti við þau, ætli ég gefi þeim ekki upp emailið mitt líka.

::13:42

 
Heiturmaturíhádeginufólk
Misrétti! Rétt í þessu var ég að komast að því að stjórnmálaáhugamaðurinn Ágúst fékk sér plokkfisk í hádeginu. Seint hélt ég að ég yrði öfundsjúkur og hvað þá út í Ágúst, en ég þurfti að láta mér nægja að borða heimasmurða samloku og jógúrt sem var komið fram yfir neysludag. Í dag vildi ég vera Ágúst, í dag vildi ég vera saddur.

Misréttið á sér engin takmörk!

::13:32

 
Fartölvuvandræði
Ég er að reyna að velja mér fartölvu til þess að kaupa mér í sumar. Ég hef fundið nokkrar, en ég skil ekki hvað er verið að bjóða upp á... Mér finnst ekki alveg nógu góðar myndir með þeim. Allavega, þá langar mig í tölvu sem er bæði með modem og þráðlaust net, það verður bæði að vera innbyggt í tölvuna (þetta veit ég þó). Ef þið eruð með einhverjar hugmyndir, ENDILEGA LÁTIÐ MIG VITA

Tölvukostur 1
Tölvukostur 2
Tölvukostur 3

::11:37

 
Mánudagsmorgnar
Mikið rosalega var yndislegt að vakna í morgun. Það er yndislegt að skríða undan sænginni og komast að því að íbúðin er undir frostmarki. Betra var samt að líta út um gluggann og sjá þetta yndislega veður, sem reynst vera algjör blekking. Það var enn kaldara úti heldur en inni í íbúðinni.

Lifi mánudagsmorgnar.

::11:32

 
Formleg opnun heimasíðunnar

Hæ heimur!
hvernig líst ykkur á síðuna mína?

gulli@love.is

::
11:08

HÆ !

Velkomin á síðuna mína. Ég vona að þú eigið eftir að hafa það fínt hérna hjá mér, ég vil helst að þú hagir þér hérna eins og heima hjá þér. Ef þú hefur einhverjar athugasemdir eða hrós sambandi við skrifin mín, þá endilega láttu mig vita.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Ágúst
Siggabeib
Bjarni hýri
Strumpurinn
Gyða Sól
Erlingur

FSS - ný síða!

emOde

gay.com
mbl.is
Spámaður
Hamstur
Betra.net
TheSpark
Love is ...
Búrfell