Gulli : varstu að leita að mér?

Today I am Yes, I am!  |  gulli@love.is  |  Skjalaskápur - Eldra efni  |  Forsíða  

     

6.12.02

 
Er Bolli heima?
Hélt að börn nú til dags væru þroskuð upp úr þessum leik. En engu að síðu trufluðu nokkur börn mig frá lestri með þessari setningu þegar þau hringu í mig. Enn skemmtilegra var þegar ég sá númerið og hringdi til baka. Síðan hringdu þau aftur til baka og þá var þetta dóttir yfirmanns míns... hmm... Þá kom prakkari upp í mér og ég gaf þeim margar aðrar setningar til þess að nota og kenndi þeim að hringja með leyninúmeri. Ef þau eru að hringjaprakkarast, þá verða þau að gera þetta rétt! Rétt?

::14:17

30.11.02

 
Samkynhneigði Bond
Ég ætla ekkert að upplýsa neitt en ákveðinn aðili er mjög hýr og margir nota mjög hýrar setningar.

::14:40

25.11.02

 
Bara í Brussel
Áhugaverða Bára er í Brussel. Hvað gerir fólk í Brussel?

::16:42
 
James Bond
Ég get sagt ykkur á fimmtudagsmorgun hvernig Die Another Day er. Ég gæti líka commenterað á það hvernig er að horfa á hana í Luxus-sal og þurfa ekki að bíða í biðröð.

Ég elska sjálfan mig - stundum get ég groppað mig svo pent!

::16:40

 
Jólaskraut
Ég er að komast í algjört jólaskap. Ég eyddi öllum deginum í gær að skreyta uppi í vinnu. Það eru sannarlega amerísk jól á Argentínu. Kalkúnn með glitri, glimmeri, jólaseríum og greni; það ætti að vera einkunarorð þessa veitingarstaðar um jólin. Ég var svo hress að ég dreif mig heim til þess að skreyta líka þar, þvoði jólagardínur, þurrkaði, straujaði og setti upp. Skellti upp jóladúknum og fann jólasveinastytturnar mínar. Setti myndir af jólasveinum á veggina og dustaði rykið af jólageisldiskum. Setti upp jólaseríur og bakaði aðra romsu af jólasmákökum. Þurrkaði af og skúraði en þreif ekki klósettið svo ég hefði eitthvað að gera í kvöld. Þetta gerði ég allt auk þess sem ég horfði á tvær videomyndir eftir vaktina í gærkvöldi. Kom heim ellefu en fór að sofa fjögur. Reif mig framúr klukkan átta í morgun til þess að nýta daginn. Segjið svo að jólin sé stresstími. Maður rumpar þessu bara af. Piparköku einhver?

::16:38

23.11.02

 
SwimFan
Not su much!
Ég fór með Ása á SwimFan í gærkvöldi. Get ekki sagt að ég sé SwimFan eða "fan" myndarinnar eftir þetta áhorf. Strákarnir voru ekkert svo mikið sýndir frá háls og niður úr. Þegar það var gert þá var það ekkert betri sýn heldur en það sem við létum nægji fyrir ofan háls. Ekki vera að ómaka ykkur á þessa mynd, þið farið síður en svo skautandi heim í sáðfalli.

::12:15
 
Ferðasaga Gulla í Köben
Ég ákvað að leyfa ykkur að njóta ferðasögunnar minnar í Kaupmannahafnarferðinni minni á NordiQ ráðstefnuna í október síðastliðnum.

Föstudagur
Ási, Gulli og Alfreð lenda klukkan 13:10 á Kastrup eftir slæma ferð. Erum sóttir á flugvöllin af hómskum sjálfboðaliðum. Er skutlað á Hótel Ascot þar sem við tjékkum okkur inn. Síðan var farið af stað í bæinn, Ráðhústorgið handan við hornið og þaðan var línan tekin á Strikið.
Ráðstefnufólk hittist klukkan 18:00 í móttöku hótelsins þar sem við förum á barinn og okkur er boðið upp á drykk. Enn vantar fjórða mann íslenska hópsins. Allir virðast vita af því og íslenski hópurinn er frekar spurður af þessum dularfulla fjórða aðila heldur en nöfn okkar sem var mættur. Hrabba lét sjá sig í restina á barnum þar sem hún gerði mikla lukku.
Síðan var farið í móttöku með danska hópnum þar sem boðið var upp á dönsk brauð og áfenga drykki í Dönsku kvikmyndastofnunni. Að því loknu var farið á neðri hæðir stofnunnarinnar og okkur boðið að horfa á opnunarmynd hátíðarinnar L.I.E. ásamt öðrum gestum. Strax á eftir var opnunarhátíðin þar sem boðið var upp á fleiri drykki. Miðar á opnunarhátíðina ruku út og þeir sem biðu í röð í tvo tíma fengu ekki einu sinni miða. Það kostaði 90 DK = 990 ISK inn á opnunarhátíðina og hún var haldin í Dönsku kvikmyndastofnunni.
Djammað með Svíum langt fram á nótt og gengið með þeim heim upp á hótel.

Laugardagur
Morgunmatur á veitingastaðnum/barnum Oscar sem er á Ráðhústorgi. Dagurinn fór allur í fundi og umræður. Fyrri hlutinn fór í það að kynnast dönsku hátíðinni og hvernig hún var byggð upp. Þar á eftir gerðu forsvarsmenn annarra hátíða/landa grein fyrir kvikmyndahátíðinni heima hjá sér eða áform sín um slíkt.
Eftir hlé fór af stað hópavinna og umræða um hvernig við gætum haldið samstarfi áfram og grætt á því. Skipt var í fjóra umræðuhópa; fjármögnun, samskipti, sameiginlegt markmið eða stefna og dreifing mynda. Á eftir kynnti hver hópur sínar niðurstöður og umræða fór um þær.
Rétt fyrir fimm var okkur boðið að sjá myndina Monkey Mask. Á eftir var okkur boðið út að borða á Sult með alla danska hópnum sem stendur að hátíðinni. Einnig voru þar framleiðandi og kvikmyndatökumaður frá New York.
Eftir matinn fóru allir á Oscar þar sem var algjörlega troðið. Allur hópurinn náði þó að marka sér svæði þar sem fólk kynntist enn betur en það gerði á opnunarhátíðinni. Um klukkan fjögur fóru Ási, Gulli, Paw og Tarja (Finnlandi) á Pan-Club.
Gulli og Alfreð spjölluðu saman til rúmlega sex um morguninn um stefnur strauma og áherslur í íslenskri gaypólitík.

Sunnudagur
Árrisulum ráðstefnugestum var boðið í “City Walk”. Íslenska nefndin afþakkaði kurteisislega með því að hagræða koddanum. Um klukkan hálf tólf var farið í morgunmat á Oscar. Eftir hádegi fórum við á útgáfuhátíð Kvikmyndablaðsins Kosmorama. Á eftir var fjallað um hverjir ætla að halda næstu hátíð. Noregur og Finnland voru einhverjar hræður. Íslendingar minntu á það hvers vegna við þurftum að flýja Skandinavíu og sögðumst ekki eiga í vandræðum með það að hrista fram eina ráðstefnu. Við áttum hvort sem er eftir að koma heilli kvikmyndahátíð á koppinn og eitt handtak til eða frá ætti ekki að skipta okkur máli. Fengum fyrst frekar furðuleg andlit til þess að stara á okkur en svo var klappað og einróma samþykkt að skella sér til Íslands að ári.
Danir fóru yfir það sem við áorkuðum þessa helgi og létu alla fá pappíra með upplýsingum um hvort annað og hver samþykkt ráðstefnunnar hefði verið.
Um kvöldið var farið út að borða á Oscar. Þar hitti ég Paw og Jakob (litla) sem við kynntumst á ráðstefnunni CpHom02 í ágúst. Kynntumst einnig Magnúsi, framkvæmdastjóra Panclub.
Rakst af tilviljun á Nick á Ráðhústorginu.
Um kvöldið fórum við í bíó á myndina Gaudi Afternoon. Á eftir fór ég með Norðmönnunum á Heaven og kynntist þeirra kvikmyndahátíð og pælingum.

Mánudagur
Morgunmatur á hótelinu. Vaknað klukkan 11:00. Norðmaðurinn tók á mér og Alfreð herbergi til þess að segja bless. Fór svo að versla með Camilla og Jörn eftir kaffibolla á Café Björgs. Hitti Nönnu og Berglindi af tilviljun á Strikinu.
Því næst fór ég á hótelið til þess að færa farangurinn heim til Nicks og Claus, en ég gisti hjá þeim sem eftir var vikunnar. Ég þurfti að taka strætó 150S og lenti einhversstaðar langt lengra en IKEA. Þá hélt ég að ég hefði farið of langt og líka þegar ég var hættur að sjá hús... Þurfti að taka strætó líka til baka og loksins lenti á réttum stað. Hjúkk. Fór svo niður í bæ með Nick og Claus, þeir voru að fara á mynd í kvikmyndahátíðinni.
Ég hitti Nönnu, Berglindi og Fannar á Ráðhústorginu og við fórum á MammaRósa að borða. www.mammarosa.dk. Ég tók göngutúr og skoðaði kirkjuna sem heitir Marmorkirken og er við hliðina á Amalienborghöllinni. Mjög heillandi.
Síðan gekk ég til DanishFilmInstitute en skoðaði í leiðinni nýja Metro-ið, nýja neðanjarðarlestarkerfi Kaupmannahafnar sem hafði verið opnað á laugardeginum áður. Þegar ég kom til Kvikmyndastofnunnar var mér boðið í svart-lesbíupartý í Vesterbro. Mjög gaman, nema að ég var eini karlkynhneigði einstaklingurinn um leið og ég var sá eini hvíti. Ég var í tvo tíma. Tók síðan síðasta kvöldstrætóinn til Ráðhústorgsins þar sem ég fór á kaffi Oscar og hitti þar Nick og Claus sem voru að koma úr bíó með Peter (kynntist honum í ágúst) og Kim (ekki þeim sem ég kynntist). Fór svo heim með Nick og Claus í leigubíl. Við náðum alveg að hneyksla leigubílstjórann með okkar með umræðu um kynlíf og typpastærðir 

Þriðjudagur
Vaknað klukkan 11:30. Morgunmatur með Nick og Claus, gekk svo heim til Paw (20 mínutuna gangur frá FF Ulriksgade til Nannasgade) þar sem Ási að sjálfsögðu var. Þá var klukkan eithvað um tvö eða þrjú og þeir höfðu ekki enn farið fram úr. Þeir höfðu samt náð aðbúa til yndislegan morgunmat handa mér. Mjög ánægjulegt.
Næst var farið niður í bæ, keyptum geisladiska, DVD og fórum í H&M. Enduðum yndislegan verslunardag í H&M. Fórum því næst í Studentahuset, ved siden af Rundetårn, þar sem Blus (systurfélag FSS) heldur GayDay á hverju þriðjudagskvöldi. Við höfðum mælt okkur mót við Morten Kabell, formann Blus. Við ræddum um næstu ráðstefnu 2003 og hvernig þessar ráðstefnur eru fjármagnaðar. Ræddum ýmislegt hvernig hún hefði tekist, hvað væri vert að endurtaka og hvað ekki. Líka komu ýmsar hugmyndir um hvernig Blus og FSS gætu farið í nánara samstarf. Morten ætlar að tala við Norrænu ráðherranefndina um hvernig hægt væri að fjármagna nánara samstarf.
Síðan fóru fleiri og fleiri danir að flykkjast inn á GayDay og við hittum mikið af því fólki sem við kynntumst í Kaupmannahöfn í ágúst. Lars keyrði okkur heim á vinnubílnum hans pabba síns, ég get sagt að það hefði verið mun þægilegra að taka strætó. Strætó stoppar líka fyrir utan hjá manni, hendir manni ekki bara út einhversstaðar og segjist ekki vita hvar FF Ulriksgade er!

Miðvikudagur
Dagurinn tekinn snemma. Farið til Paw’s. Keypti vínarbrauð. Morgunmatur hjá Paw. Át vínarbrauðin, því að drottningarnar mínar tvær eru að passa línurnar. Ég og Ási fórum á Hovedbandegården þar sem ég átti stefnumót með Anika, Esther og Claus. Við vorum að fara til Malmö. Malmö var skemmtileg en það var ekkert gert annað en að hanga á kaffihúsi og kíkja í verslanir. Jú og hlusta á sænsku, hún er frekar spes, sérstaklega þegar hún er blönduð með Skánsku.
Þegar komið var til baka á Hovedbandegården þá var keyptur Mogginn og gott gayblað. Fór heim til Paws og lagði mig. Var vakinn með yndislegu grænmetislasagne þar sem Anders, Marie og Hjelte komu í mat. Anders og Marie eru vinir Paw sem búa í sömu blokk en Hjelte er 1 árs barnið þeirra. Drukkum rauðvín og spiluðum þýskan Seatler. Labbaði heim til Nick og Claus mjög fullur og talaði við Bjarna alla leiðina heim, fór meira að segja löngu leiðina (30 mín).

Fimmtudagur
Vaknaði mjög seint og enn meira timbraður. Hausinn var þungur. Rakaði mig og fékk mér expresso. Nick og Claus höfðu vaknað klukkan sex til þess að hjálpa vini sínum að flytja. Fór svo yfir til Paw og Ása þar sem við fórum niður í bæ og fengum okkur ógeðslegan BurgerKing. Kíktum í hommabúð, Ástu G (skor.is) og Magasín. Kíktum í Sult (veitingastaðinn í FilmInstitute) þar sem við hittum Esther, Aniku, Anette og fleiri. Ási kynntist Duncan, framleiðenda og leikstjóra AKA. Kvikmyndarinnar sem ég fór á næst með Jakobi, Ása, Paw og Lars.
Því næst fór alli danski hópurinn sem ég og Ási kynntumst í ágúst út að borða á PastaBasta. Því næst tókum við strætó heim til Nick og Claus, fengum meira að segja frítt og það finnst Dönum mjög gott!

Föstudagur
Hjálpaði Nick og Claus að þrífa íbúðin sína allan daginn því að þeir stóðu í flutningum. Ég er orðinn ansi laginn með málningarbandið ef einhver vildi vita það. Um klukkan fjögur sagði ég bless og labbaði af stað með töskuna mína til Paws. Þaðan fórum ég, Ási og Paw á flugvöllinn og fengum okkur bjór á einhverjum enskum stað. Fengum yndislega góð sæti í flugvélinni og það fór ekki framhjá neinum að hér væru hommar í ferðalagi. Vorum alveg með statement á hreinu, því að það sat nú alþingismaður fyrir framan okkur. Klukk, hann er hommi!
Freyja frænka sótti okkur á völlinn og það var alveg yndislegt að vera kominn heim í kuldann til þess að geta farið út aftur.

::12:13


22.11.02

 
Tónleikar
Var á tónleikum hjá Hreiðari í gær. Einstaklega vel heppnaður, en núna þegar ég er að horfa á fréttirnar, þá er verið að kynna James Bond myndina, hver haldið þið að sé einmitt að syngja einhver James Bond lög? Sama gellan og söng fyrir Hreiðar í gær. Ég bara held það!

::19:00
 
Morgunlínan
Vildi bara gefa út þá yfirlýsingu að ég var að reyna að sýna "morgunlínu Gulla" í Fréttablaðinu í vikunni. Bara til þess að engin sé að misskilja mig.

::18:57
 
Hommar í fremstu röð
Til hamingju kynviltu karlmenn sem unnu stórglæsilegan árangur í Hr. Ísland! Þetta sýnir bara enn og aftur að við höfum stóran hluta fallegstu karlmannanna í okkar reglu. Vildi svo bara þakka ykkur öllum fyrir aðstoðina við að skauta í sáðfalli. Takk fyrir mig!

::18:56

19.11.02

 
Staffadjamm
Get alveg vottað það að það var gaman í gær. Ég þambaði rauðvín eins og ég gat, en ég held barasta að þetta hafi verið litað vatn. Áhrifin voru enginn, allavega var ekkert mál að vakna í morgun. Umræðan í gærkvöldi litaðist svolítið af þrennu: Ritelglösum, milliréttum og þessari heimasíðu. Merkilegt hvernig maður getur haft áhrif á líf, skoðanir og hegðan fólks með einhverju pikki. Sumar drottningar eru einfaldlega dramadrottningar og þeim kynntist ég í gær. Annars afþakkaði ég boði Adda þegar hann bauðst til þess að bjóða mér út að borða, ég átti nú ekki von á því að segja nei, en þarna sagði kvenlega eðlið mitt til sín, ég var með hausverk! Vildi bara fara heim og sofa.

::11:33

15.11.02

 
Læsti mig úti
Ég get vottað það að það er mjög kalt úti. Í raun ekki MJÖG kalt heldur skítakuldi. Ég er búinn að finna skóflu til þess að grafa áfengi í garðinn sem ég get notað til þess að hlýja mér í svona uppákomum. Sem betur fer var Freyja frænka bara á rúntinum (eini dagurinn á árinu) á þessum föstudagsmorgni og gat komið með sína aukalykla. Ég vil samt kenna 10-11 um þetta allt. Ég hefði nefnilega aldrei farið út í búð ef að þau væru ekki byrjuð að opna svona snemma. Djöfull.

::12:09

14.11.02

 
Enginn póstur
Hvers vegna hef ég ekki fengið neinn póst í dag? Er jafn vond lykt af mér og vinnufötunum hans Adda?

::18:31
 
Er ég svona þreyttur eða vitlaus?
Ég skil ekki stjörnuspánna mína:
Ef þú hefur þörf fyrir viðurkenningu ættir þú að byrja á því að hefja leit þína að innri löngun og virkja sjálfið. Meyjan birtist hér sem þrjósk manneskja sem gleymir af einhverjum ástæðum að virkja eigin hæfileika þegar mikið liggur við, hafðu það hugfast næstu vikur og reyndu að breyta því meðvitað. Stjarna þín er án efa fær um að njóta stundarinnar með réttu hugarfari en á það til að gleyma að rækta andann. Þú virðist hafa komið verkefni af stað sem mun stækka til muna og gera mörgum gott innan þriggja mánaða miðað við stjörnu meyju hér.
Mér líður kjánalega.

::18:03
 
Rómaður Oddi
Notalegt að sitja hérna uppi í Odda og vera lesa, fara yfir texta og skrifa póst. Bara ef fleiri sætir strákar vissu af þessum stað.

::18:00
 
Einkamal.is
Er alltaf að fá reglulega skilaboð um ný skilaboð á einkamál.is. Hef ekki skoðað það í svona tylft mánuða. Ætti maður að athuga hvort að maður sé að missa af draumaprinsinum? Nei held bara ekki, ef hann virkilega langar að kynnast mér, þá hlýtur hann að mæta heim til mín í miðri viku með kringlu, kaffi og snúð til þess að vekja mig.

::17:59
 
USA - people - fucked up!
Fyrrverandi bekkjarfélagi minn er í námi í Gerogíu USA. Hvað haldið þið að kennarinn hafði þurft að ræða við hann þegar hann biður hann um að koma á skrifstofuna sína til sín til þess að ræða við hann mál undir fjögur augu? Tengdist það náminu? Nei... Hann þurfti að spurja hvort að vinurinn væri til í að fara á deit með dóttur sinni, þau væru í sömu tímum og höfðu sama áhugamál!

Pant ekki!

Og vegna þess að ég er að spjalla við hann á MSN er hann að bæta við söguna. Hann er 194 cm á hæð. Pían er hærri! Hann er bara með eitt mottó: ekki deita neina sem er hærri!

::17:53


11.11.02

 
Addi
Yndið mitt bað sérstaklega um það að ég myndi skrifa eitthvað fallegt um hann. Það finnst mér alveg sjálfsagt! Addi er einstaklega heillandi persóna.Hann vildi sérstaklega að ég skrifaði eitthvað fallegt eftir að margir heimsóknaraðilar heimasíðunnar minnar héldu að ég hefði tottað hann. Við skulum vona að enginn sé að misskilja neitt.

Það er mjög auðvelt að segja fallega hluti um hann Adda, hann er skemmtilegur, fyndinn og sætur. Hann er frábær samstarfsmaður og um leið yfirmaður. Til dæmis í dag þá hélt hann starfsmannafund og gaf okkur pizzur. Æðislegur? Ég bara held það!

::02:39


8.11.02

 
Prof.is
Var á fundi í kvöld með öllum formönnum nemendafélaganna innan HÍ. Þvílíkur fjöldi! Stúdentaráð kynnti fyrir okkur nýja prófbankann sem verður opnaður hér á nýju léni, www.próf.is

::02:19

7.11.02

 
Afmæli
Freyja sæta á afmæli í dag. Það er hægt að óska henni ókeypis afmæliskveðju hérna. Hún er 21 árs!

::11:57
 
Virkari heimasíða
Greinilega er Gulli-love orðinn virkari á heimasíðunni sinni. Er það eitthvað sem við viljum sjá í framtíðinni? Skjóttu á mig áliti um það hvort að þú vilt meira eða ekki.

::01:35
 
Hræsni og vandræðagangur
Ég get af minni einskæðu óheppni sagt að ef einhver gengur á vegg í búningsklefa í ræktinni, þá er líklega um mjög samkynhneigðan mann að ræða. Ég tala nú ekki um þegar það er mjög vont og allir glápa á þig og veggurinn var bara veggur, ekki einu sinni horn sem viðkomandi rekur sig utan í. Þér líður samt betur þegar þú kemur út og sérð að fólk eru hræsnarar. Það borgar mörg þúsund krónur til þess að fá að sprikla og hreyfa sig, en leggur svo ekki í bílastæði sem eru næg í kringum Sporthúsið. Nei, það leggur í eina kaós við innganginn þannig að það þurfi ekki að labba lengra en nauðsynlegt er. Skrítið, ætli það sé að spara bensín, því það á ekki pening eftir að hafa keypt sér kort í ræktinni?
Hvar leggur þú?

::01:32
 
Hver er kjarni málsins?
Ég þurfti að stoppa á rauðu ljósi í dag sem er ekki frásögufærandi nema að ég var að koma úr Moggahúsinu. Á rauða ljósinu var einnig sjálfrennireið sem var stopp. Ég leit sem snöggvast inn í bílinn sem var kyrfilega merktur Morgunblaðinu og hvernig hann væri kjarni málsins. Starfsmaður Moggans var í óðaönn við að lesa DV. Þannig að ég spyr: Hver er kjarni málsins?

::01:25

6.11.02

 
Misskilningur
Fólk virðist almennt misskilja það að ég hafi verið að totta yfirmann minn í síðustu viku. Þar á meðal yfirmaður minn og samstarfsfólk. Ég vil leiðrétta þann misskilning og benda fólki á að það hlýtur að bera sjálft ábyrð á sínum eigin getgátum. Það eina sem ég sagði var að ég hefði t---a yfirmann minn. Ég klárlega talaði við hann. Ég ber því ekki ábyrgð á því sem fer af stað í ykkar eigin sora heila.
Góðar stundir.

::01:27

1.11.02

 
Afmæli
Í kvöld er ég að fara í matarboð til ömmu minnar sem er 73 ára. Þess vegna þurfti ég að t---a hann Adda, yfirmann minn til þess að fá frí í vinnunni.

::16:05
 
RedDragon
Fór á RedDragon með konunni minni í gær. Ég get sagt að við vorum báðar frekar hræddar og fólkið fyrir aftan okkur hafa haldið að þarna voru tvær átta ára stelpur á ferð, við vorum samt sammála um að þarna væri ekki ógeðsleg mynd á Hannibal Lecter mælikvarða, einungis MJÖG SPENNANDI.

::16:04

1.10.02

 
Óheppni - útrunnið kort
Í gærkvöldi fannst mér og Ása tilvalið að horfa á Video eftir vinnu með Völu systur sem var í bænum í nótt. Þetta var ákveðið nokkrar mínútur fyrir miðnætti og var systir mín að klára vinnuna sína í Kópavogi þegar ég og Ási vorum að klára vaktina á Argentínu. Því var ákveðið (til að nýta tímann, þið þekkið mig) að Vala myndi fara að kaupa ís, nóa-kropp og sósu á meðan ég og Ási myndum sækja spólu og skutla samstarfsfólkinu heim. Þegar litla dramadrottning okkar (hún Ási) sagðist ekki borða ís þá hringdi ég í Völu sem hafði þá farið úr Select í Kópavogi og var á leið heim. Ég bað hana því að kaupa Mjallhvítardrykkinn, 7up, fyrir drottninguna. Ekkert mál, Vala fór því á Select í Breiðholti. En margt hafði gerst. Hún hafði greitt með debetkortinu sínu í Kópavogi klukkan 23:59 þann 30. september árið 2002. Þegar hún kom á Select í Breiðholti var hún stödd í Reykjavík klukkan var 00:11 en það var líka kominn nýr dagur og um leið nýr mánuður, 1. október. Sjáið þið hvert þetta stefnir? Ég get gefið ykkur eina vísbendingu: Hún borgaði með debet-korti sem rann út september 2002. Þegar henni var sagt að kortið væri útrunnið þá sagði hún að það gæti nú varla verið... Hún hefði borgað með því fyrir nokkrum mínutum.. Óþægilega hallærislega skemmtilegar aðstæður.

Með kveðju frá Reiknisstofu Bankanna,
Gulli

::11:21


30.9.02

 
Ég og Sigga - alveg eins




I'm exceptionally artistic!

Find your soul type
at kelly.moranweb.com.


::16:09

25.9.02

 
Samsveitungar og sviðsljósið
Samsveitungar mínir hafa verið ansi duglegir undanfarið við að koma sér í fjölmiðla undanfarið vegna rollurassgata upp á hálendi og fyrirhugaðara virkjunarframkvæmda hjá hinu nýja óskabarni þjóðarinnar. Þetta er nýjasta spotlightið.

::16:14

23.9.02

 
www.semsagt.net/gulli
Verið velkomin í bæinn!

::15:21
 
Drepumst í aðferðafræði
Núna er aftakan að byrja. Ég og Lilja erum að ganga út í Háskólabíó til aftöku. Ég tók kodda og teppi með þannig að ég geri mér vonir til að lifa af án mikilla líkamlega óþæginda.

::15:21
 
Matur og vín
Ég og Ási héldum matarboð í gær. Buðum einni manneskju til leikanna. Hennir var sagt í seinustu viku að hún þyrfti að taka kvöldið frá, hafa hlý föt og vera tilbúin í hvað sem er. Þegar hún mætti stóðum ég og Ási á nærfötunum einum fata og svuntur. Hann var með kokkasvuntu og ég var með þjónasvuntu og bindi. Þar fékk hún fordrykkinn sinn sem var mjög góður. Síðan var boðið upp á grillaðar nautalundir, þykka piparsósu, pönnusteikt grænmeti og hvítlaukssmjör, rauðvín í boði Norðurljósa var á boðstólnum. Mjö gott rauðvín sem var drukkið frameftir kvöldi. Á eftir þessu var boðið upp á bakaða kartöflu með hvítlaukssmjöri. A eftri því byrjaði rauðvínsþamb, því að það var lítið eftir og allir vildu meira. Síðan var farið á videoleiguna til að sækja sér spólu og bjórinn tekinn með. Ameros Peros var tekin en yfir henni var borðuð heimalöguð ostakaka og með henni drukkinn restin af fordrykknum. Það er hægt að segja að það sullaðist í hausnum á mér þegar ég vaknaði í morgun.

Næst verður haldin humarhátið. Ég hlakka til.

::15:19


19.9.02

 
Djúpa laugin
Það má ekki missa af Djúpu lauginni á morgun. Það er gay-þáttur (eða hómskur þáttur eins og vinnan mín kallar það) og strákarnir verða í dragi!

::16:44
 
Hommahatari
Það er nú ekki amalegt að hafa þennan mann til að syngja fyrir sig afmælissönginn. eins og þið getið lesið á þessari síðu var mikil gleði á réttar/afmælisballinu mínu.

::15:10
 
Þráðlaust net
Kominn á þráðlausa netið í Háskólanum. Komst að því að maður þarf að skrá einhverja MAC-Addressu, lærði það hjá stelpu sem sat fyrir framan mig í gær. Þetta er ofsalega flókið en af hverju sagði Reiknistofa Háskólans mér ekki frá þessu í upphafi? Ég sendi þeim póst og sagði þeim að ég kæmist ekki á netið og ég ætti í einhverjum vandræðum. Ég hafði ekki hugmynd um að það væri einhver hjálparsíða um þetta...
Núna verður loksins bloggað... aftur!
Kveðja

::13:36
 
Deisjavú
Sit í almennum félagsfræðum og er að læra allt um framboð og eftirspurn, Adam Smith og þá kappa. Er einhver annar en ég að fá Deisjavú frá Sólveigu Lilju, Helga Baldurs, Guðlaugu Níelsen, Tomma Sölva og þeim köppum? Rétt í þessu nefndi hann ójafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar. Ég er búinn að sitja í 40 mínútur og núna erum við að fara fjalla um ójafnvægi á milli þessara þátta. Er þetta háskóli?

::13:33

17.9.02

 
Drakk í gær
Í fyrsta skipti í þrjú ár. Var þunnur á mánudegi þegar ég er í skólanum frá 10 til 18 og svo í vinnu frá 18 til 23:30. Ég mæli ekki með þessari samsetningu, nema ef Blóðbankinn vekur þig, þá er það í lagi.

::02:20
 
Gangi þér vel í lífinu
Vaknaði við það í morgun að blóðbankinn hringdi í mig. Ekkert er betra en að segja við einn meinatækni eldsnemma að morgni til með frekar háum rómi: JÁ BLESSUÐ VINKONA! Hún vissi greinilega ekki hvaðan á sig stóð veðrið, bjóst ekki við svona hressum dreng í blóðflokki A-. Þegar hún sagði mér erindið sitt, að henni sárvantaði blóðið mitt, hvort ég gæti ekki kíkt í dag. Ég sagði að það væri nú lítið mál, en nú væri bara hagir mínir búnir að breytast síðan að ég hefði farið í prufu og sú breyting væri að ég hefði sofið hjá karlmanni. Ég spurði hana í framhaldi af því (því að hún sagði nú frekar lítið) hvenær best væri að ég kæmi. Hún svaraði því þá að ég mætti þá ekki gefa blóð og að þá ætti ég ekkert að vera ómaka mig við að kíkja í heimsókn (hvað varð um íslenska gestrisni, má ég þá ekki kíkja í kaffi?). Ég sagði að það þætti mér leiðinlegt að heyra, en óskaði henni samt góðs gengis við að safna blóð og ég sagðist óska þess að þessi blóðþurrð þeirra myndi bjargast. Þá sagði hún með klökkri rödd (eins og gömul bitur kona sem missti einu kúna sína í móðuharðindunum og þarf að velja hvort barnið hennar á að deyja svo hitt muni lifa): Nei takk, gangi þér vel í lífinu. Svo lagði hún á, enda um að gera að vera ekki að eyða símreikningi sem þjóðin greiðir sjálfum sér.

::02:17

13.9.02

 
Systir á lóðaríi
Nú var litla systir að hringja fram úr sveit. Hún er búin að vera nokkuð dugleg að þræða bæina í sveitinni í dag á hestbaki. Hún er aldrei búin að vera ríða hestum frá okkur, heldur hefur hún bara ráfað frá einum bæ til annars, merkilegt nokk, en þá búa folar í öllum þessum sveitabæjum sem hún kíkti í. Ætli hún sé að leggja línurnar fyrir ballið í kvöld? Er hún að vinna meiri "heimavinnu" en ég?

::20:50
 
Réttir
Í dag var eitt stærsta sáðfall ársins. Réttir, ég segji ykkur allt frá því seinna, þegar víman er runnin af mér, þá skal ég tjá mig aðeins um þetta, hlutlaust. En ég sem skildi eftir smokka og sleipiefnið eftir í bænum, ég er svo mikill kjáni, ég hreinlega bjóst ekki við að það yrði notað...

::20:48
 
Strumpurinn
Ég hafði bara ekki hugmynd um að hann væri á MSN, mér finnst allavega að allir ættu að vera á MSN, því þá gætum við hent Landssímanum.

::20:46
 
BTGSM
Af hverju er ég ekkert að skilja það sem Ágúst er að bulla um þetta fyrirtæki?

::20:41

12.9.02

 
Fólk hlýtur að velta því fyrir sér
Hvort að það sé svona erfitt að vera svona misheppnaður. Hópurinn sem hittist úti í Kaupmannahöfn í seinasta mánuði er með einhverslags hópaðgang á yahoo.com en það er hægt að skoða það betur á yahoogroups.com. Það var nú samt ekki það sem ég ætlaði að fjalla um. Það er mikil umræða búin að vera þar í gangi, bæði persónuleg og almenn. Eftir mikið puð og læti tókst mér loksins að skrá mig inn á þennan hóp. Voðagaman, nema hvað að í ánægjuvímu minni senda ég út póst til allra þar sem ég tilkynni gleðifréttirnar. Allir taka vel í það. Síðan fæ ég svona "hálfklúrt" email frá einum vini mínum sem segjir að ég sé meðal annars skinka. Ég bregst auðvitað strax við og spyr hvort að ég sé ætlaður ofan á brauð til átu (flytja íslenskan húmor út úr landi) og fleira í þeim dúr, nema hvað að mér mistekst að senda þetta sem private message á einhvern hátt og núna eru yfir 100 manns um alla Evrópu búnir að fá þessa klúra bréf mitt í inboxið sitt og bíður eftir því að vera lesið. Þetta er meira að segja fólk sem mér líkar mjög vel við!

Stundum held ég að það borgi sig ekki fyrir mig að fara fram úr, nema þá daga þegar ég er niðugreiddur af Evrópusambandinu, Sænsku þjóðkirkjunni eða Norrænu ráðherranefndinni, ég sef þá fram í miðjan október. Góða nótt.

::14:40

HÆ !

Velkomin á síðuna mína. Ég vona að þú eigið eftir að hafa það fínt hérna hjá mér, ég vil helst að þú hagir þér hérna eins og heima hjá þér. Ef þú hefur einhverjar athugasemdir eða hrós sambandi við skrifin mín, þá endilega láttu mig vita.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Ágúst
Siggabeib
Bjarni hýri
Strumpurinn
Gyða Sól
Brynjar
Alli
Erlingur

FSS - ný síða!

emOde

gay.com
mbl.is
Spámaður
Hamstur
Betra.net
TheSpark
Love is ...
Búrfell